Byggðasafn Vestfjarða er eitt af þremur söfnum á landinu sem eru tilnefnd til íslensku safnaverðlaunanna árið 2008. Þetta var tilkynnt á alþjóðlega safnadeginum þann 18. maí. Auk Byggðasafns Vestfjarða á Ísafirði voru Minjasafnið á Akureyri og Safnasafnið í Svalbarðsströnd tilnefnd að þessu sinni. Íslensku safnaverðlaunin verða afhent á íslenska safnadeginum þann 13. júlí.

Það er Félag íslenskra safna og safnmanna ásamt Íslandsdeild ICOM (alþjóðaráði safna) sem standa saman að verðlaununum sem veitt eru annað hvert ár safni sem þykir skara fram úr. Safnaverðlaunin voru fyrst veitt Síldarminjasafninu á Siglufirði fyrir átta árum og eru veitt sjötta sinni í ár. Kallað var eftir ábendingum frá almenningi í ár og bárust yfir sextíu hugmyndir að tilnefningum og voru söfnin þrjú valin þar úr.

Í tilnefningu segir að Byggðasafn Vestfjarða á Ísafirði sé einstakt safn í sinni röð. Það leggi m.a. áherslu á að safna bátum og bátavélum og hafi umsjón með elsta slipp landsins. Minjasafnið á Akureyri sé eitt öflugasta byggðasafn landsins og í góðum tengslum við umhverfi sitt, standi fyrir metnaðarfullum sýningum í Laufási, Kirkjuhvoli á Akureyri, Nonnahúsi og víðar og hafi þeir sem að því standa virkjað almenning til samvinnu til að viðhalda þekkingu eldri kynslóða. Í Safnasafninu á Svalbarðsströnd fer fram ástríðufull söfnun á alþýðulistaverkum, að mati dómnefndar, sem stuðlar að varðveislu menningararfs sem annars hefði getað farið forgörðum. Auk þess er þar að finna safn nútímalistaverka og verk eftir samtímalistamenn. 

Þessi frétt er afrituð af fréttavefnum www.skutull.is og breytt lítillega.

Svipmynd